Fótbolti

Sumarmessan: „Tempólaus“ Iniesta fengi ekki að spila fyrir Hjörvar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Iniesta í leiknum gegn Marokkó í gær
Iniesta í leiknum gegn Marokkó í gær Vísir/getty
Andres Iniesta, einn af betri miðjumönnum fótboltaheimsins síðustu ár, má telja sig heppinn að Hjörvar Hafliðason er ekki spænski landsliðsþjálfarinn.

Hjörvar sagði í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld að Iniesta fengi ekki að spila mínútu ef hann væri landsliðsþjálfari Spánar. Spánn gerði 2-2 jafntefli við Marokkó í gær og tryggði sér efsta sæti B-riðils. Myndbandsdómgæslu þurfti til þess að dæma jöfnunarmark Iago Aspas gilt.

„Iniesta er alveg tempólaus,“ sagði Hjörvar og uppskar mikil mótmæli frá Reyni Leóssyni.

Iniesta og Sergio Ramos gerðu sig seka um hræðileg mistök sem kostuðu fyrsta mark leiksins en hann bætti svo upp fyrir það með því að leggja upp fyrra mark Spánverja.

„Þeir tala um það spænsku landsliðsmennirnir að Iniesta hafi sjaldan verið eins ferskur og einmitt núna,“ sagði Reynir.

„Sem betur fer ert þú ekki landsliðsþjálfari Spánverja.“

Þeir félagar rifust heiftarlega um málið og má sjá innslagið í sjónvarpsglugganum með fréttinni.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×