Innlent

17 ár fyrir manndráp og tilraun til manndráps: „Ákærði virðist hafa verið hamslaus“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur Hoe þegar hann kom í dóminn í dag.
Dagur Hoe þegar hann kom í dóminn í dag. fréttablaðið/stefán
Héraðsdómur Reykjavíkur segir aðeins unnt að styðjast að takmörkuðu leyti við framburð Dags Hoe Sigurðssonar um þá atburði sem gerðust aðfaranótt 3. desember 2017 á Austurvelli en Dagur var í héraðsdómi í dag dæmdur í 17 ára fangelsi fyrir manndráp og tilraun til manndráps þá nótt.

Dagur var ákærður fyrir að hafa orðið Albananum Klevis Sula að bana með hnífsstungu á Austurvelli umrædda nótt. Þá var hann einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið samlanda Sula, Elio Hasani, þrisvar sinnum sömu nótt.

Fyrir dómi neitaði Dagur sök og bar fyrir sig minnisleysi um það sem gerðist. Dómurinn taldi hins vegar sannað með vitnisburði annarra sem komu fyrir dóminn, sem og niðurstöðum DNA-rannsókna, að Dagur hefði gerst sekur bæði um manndráp og tilraun til manndráps.

Blóð úr Sula á hnífnum og á fatnaði Dags

Í niðurstöðu dómsins er vísað til vitnisins G sem sá Dag handleika hníf áður en hann veittist að Sula og Hasani. Þá lýstu vitnin J og K því „er maður, sem af samhenginu að ráða var ákærði, kom á móti þeim og á eftir A með hníf í hendi.

Öll báru þessi vitni um háttalag ákærða á þessum tíma og hið sama gerðu vitnin F, H og I og vísast um það til þess sem rakið var að ofan. Mörg vitnanna þekktu til ákærða og vissu á honum deili,“ segir í dómi héraðsdóms. Í dómnum hefur nafn Sula verið máð út og hann nefndur A.  

Þá er jafnframt vísað er DNA-rannsóknar sem gerð var á blóðsýnum á hníf og fatnaði en blóð úr Sula fannst á hnífnum sem Dagur kvaðst eiga. Lagt var hald á hnífinn þegar Dagur var handtekinn. Þá fannst blóð úr Sula í fatnaði Dags.

„Auk þessa er vísað til vitnisburðar T sem bar fyrir dóminum að stungusár á A kunni að hafa verið eftir hníf eins og þann sem hér um ræðir. Skýringar ákærða á því hvernig blóð kunni að hafa borist á hnífinn og í fötin eru fráleitar og verður ekki á þeim byggt,“ segir í dómnum.

Hasani kom fyrir dóminn og lýsti tilefnislausri árás Dags á þá Sula um nóttina. Metur dómurinn vitnisburð Hasani trúverðugan og er hann lagður til grundvallar niðurstöðu dómsins. Þá fær vitnisburður Hasani einnig „stoð í vitnisburði F og G og er með stoð í vitnisburði H og I þótt hinir tveir síðarnefndu beri hvor með sínum hætti um upphafið. Er með þessum vitnisburði og öðru því sem rakið hefur verið og með öðrum gögnum málsins, m.a. DNA-rannsóknum og með upptökum úr eftirlitsmyndavélum sem styðja að mestu leyti frásögn vitna, og með stoð af vitnisburði J og K sannað, gegn neitun ákærða, að hann veittist að þeim A og B vopnaður hnífi eins og lýst er í ákærunni.

Með læknisfræðilegum gögnum og vitnisburði sem rakinn var um áverka A og B og um andlát A er sannað, gegn neitun ákærða, að afleiðingar árásar hans á mennina urðu þær sem lýst er í ákærunni,“ segir í dómnum þar sem Hasani er nefndur B.

Ofsafengin hnífaárás

Segir í dómnum að Degi hafi mátt vera ljóst að „bani væri líklegasta afleiðing ofsafenginnar hnífaárásar hans á A.“

Svo segir áfram í dómi héraðsdóms:

„Ákærði stakk B í bakið, í vinstri öxl, á vinstri upphandlegg og í vinstra kálfa. Ákærði virðist hafa verið hamslaus er hann veittist að mönnunum og algjör tilviljun hefur ráðið því hvar hnífstungurnar komu á þá A og B. Þessu til stuðnings er vísað til þess sem vitni báru um hamsleysi ákærða og vitnið E kvað ákærða hafa lýst því að hann hefði ,,snappað“ er hann stakk mennina með hnífnum. Þótt ákærði hafi ekki fyrir fram haft ásetning til að fremja manndráp ber hann refsiábyrgð á grundvelli líkindaásetnings eins og rakið var er varðar A. Það er mat dómsins er tekið er mið af stórhættulegri og ofsafenginni atlögu ákærða að B og fjölda stungusára sem ákærði veitti honum að ákærði hafi átt að gera sér grein fyrir því bani að væri líkleg afleiðing þessa en hending réði því að svo varð ekki. Að þessu virtu og öðru því sem rakið hefur verið er það mat dómsins að heimfæra beri brot ákærða gagnavart B sem tilraun til manndráps sem varði við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir.

Vísað er til þess sem rakið var að framan um læknisfræðilegar rannsóknir á ákærða með tilliti til sakhæfis hans. Að því sem þar kemur fram virtu og öðrum gögnum málsins er það mat dómsins að ákærði sé sakhæfur.

Að öllu framanrituðu virtu er það mat dómsins að skýringa á háttsemi ákærða greint sinn sé helst að leita í ölvun hans. Hvorki ölvunin né annað ójafnvægi sem ákærði kann að hafa verið haldinn á verknaðarstundu leysir hann undan refsiábyrgð.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Árás ákærða á A og B með hinum gríðarlega alvarlegu afleiðingum var tilefnislaus og hrottafengin og á ákærði sér engar málsbætur. Ákærði er dæmdur fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 17 ár en til frádráttar refsingunni komi samfellt gæsluvarðhald ákærða frá 3. desember 2017 að telja til dagsins í dag.

Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er dæmdur upptækur hnífur af gerðinni Muela.“

Dagur var dæmdur til að greiða móður Sula 3,5 milljónir króna í miskabætur og föður hans einnig 3,5 milljónir króna. Þá var hann dæmdur til að greiða Hasani 1,5 milljónir króna í miskabætur.


Tengdar fréttir

Grunaður morðingi ber við minnisleysi

Aðalmeðferð hófst í gær í máli Dags Hoe Sigurjónssonar sem ákærður er fyrir að hafa orðið albönskum manni að bana á Austurvelli í desember. Einnig grunaður um tilraun til þess að drepa annan mann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×