Erlent

Farþegar á fyrsta farrými hjá Air India útbitnir af lús

Birgir Olgeirsson skrifar
Farþegaþota Air India yfir Mumbaí.
Farþegaþota Air India yfir Mumbaí. Vísir/Getty
Farþegar á fyrsta farrými flugvélar indverska ríkisflugfélagsins voru illa bitnir af veggjalús í áætlunarferð frá New York í Bandaríkjunum til indversku borgarinnar Múmbaí 18. júlí síðastliðinn.

Forsvarsmenn flugfélagsins hefur beðist afsökunar á þessu og fyrirskipað rannsókn á málinu. Hefur flugfélagið heitið því að sótthreinsa vélina hátt og lágt til að koma í veg fyrir að þetta muni endurtaka sig.

Einn af farþegunum er Saumya Shetty en hún var með skordýrabit út um allan líkamann og birti myndir af útbrotunum á Twitter. 

Hún sagði í samtali við fjölmiðla að hún hefði þurft að hafa mikið fyrir því að ná athygli flugfélagsins og fékk ekki afsökunarbeiðni frá flugfélaginu fyrr en hún hafði heimsótt starfsstöð þess.

Í afsökunarbréfinu kom fram búið væri að hreinsa vélina og skipta um áklæði á sætum vélarinnar. Í bréfinu kom fram að þessi lúsarfaraldur gæti hafa átt sér stað vegna veðuraðstæðna. 

Shetty sagði þessa útskýringu á lúsafaraldrinum ekki trúlega, það er að hann sé veðrinu að kenna, og bætti við að flugfélagið hefði boðist til að endurgreiða 75 prósent af því sem hún greiddi fyrir flugfarið.

Air India er stærsta flugfélag Indlands en á vef fréttastofu BBC  er tekið fram að flugfélagið sé stórskuldugt. BBC segir fyrirtækið hafa tapað markaðshlutdeild og hefur hrapað í áliti viðskiptavina vegna slæmrar þjónustu. 

Fyrir nokkrum árum þurfti að snúa vél flugfélagsins, á leið frá Mumbaí til London, við eftir að rotta sást í farþegarými vélarinnar. 

Air India hefur ekki skilað hagnaði síðan árið 2007. Árið 2017 kynntu yfirvöld í Indlandi áætlanir þess efnis að einkavæði flugfélagið. Enginn var þó tilbúinn til að kaupa ráðandi hlut í flugfélaginu. Hefði einhver ákveðið að kaupa ráðandi hlut í félaginu, þá hefði hann jafnframt þurft að taka við skuld sem nemur um fimm milljörðum dollara, eða sem nemur um 519 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×