Samkomulagið var gert á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna í minnst tíu ár og hleypa eftirlitsaðilum í landið.
Rouhani ræddi við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, fyrr í dag og sagðist hann vilja að þau Evrópuríki sem koma að samkomulaginu tryggðu Íran aðgang að bankaþjónustu og tryggðu að Íran gæti selt olíu áfram.
Ríkismiðill Íran hefur eftir Rouhani að hann hafi sagt Macron að Íranir hafi fylgt samkomulaginu að fullu og hann ætlaðist til þess að það væri áfram gilt.
Bandaríkin hafa beitt Íran viðskiptaþvingunum að nýju og hefur efnahagur Íran farið versnandi síðan Trump dró Bandaríkin frá samkomulaginu.
Íranir hafa síðan þá hótað að grípa til hernaðaraðgerða í Persaflóa og koma í veg fyrir að önnur ríki svæðisins, Írak og Sádi-Arabía, geti flutt olíu sína úr landi þá leið.
Yfirmaður sjóhers Íran sagði í dag að Íran stjórnaði Hormuz sundi að fullu og Bandaríkin ættu að flytja flota sinn frá Persaflóa.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, svaraði á Twitter í kvöld og sagði Íran ekki eiga rétt á sundinu. Það væri alþjóðlegt hafsvæði og Bandaríkin myndu starfa með bandamönnum sínum í að tryggja frjálsar siglingar um svæðið.
The Islamic Republic of Iran does not control the Strait of Hormuz. The Strait is an international waterway. The United States will continue to work with our partners to ensure freedom of navigation and free flow of commerce in international waterways.
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) August 27, 2018