Fótbolti

Einn af FIFA-svikahröppunum dæmdur í fjögurra ára fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Maria Marin.
Jose Maria Marin. Vísir/Getty
Fyrrum formaður brasilíska knattspyrnusambandsins er á leiðinni í fangelsi vegna spillingamála og hann þarf einnig að greiða stóra sekt og gefa eftir mikinn pening.

Hinn 86 ára gamli Jose Maria Marin var formaður brasilíska sambandsins frá 2012 til 2015. Hann var einn af sjö stórlöxum hjá FIFA sem voru handteknir á hóteli í Zürich í maímánuði 2015. BBC segir meðal annars frá.

Marin fékk fjögurra ára fangelsisdóm hjá dómara í Brooklyn í Bandaríkjunum en hann fékk dóminn fyrir að þiggja mútur frá markaðsfyrirtækjum í skiptum fyrir sjónvarpssamninga frá keppnum eins og Copa America.





Bandaríski dómarinn Pamela Chen dæmdi og er Jose Maria Marin sá fyrsti sem er dæmdur út frá rannsóknar bandarísku Alríkisrögreglunnar á spillingamálum innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Marin þarf einnig að greiða 1,2 milljón Bandaríkjadala í sekt, 129 milljónir íslenskra króna, og gefa ennfremur eftir 3,34 milljónir Bandaríkjadala, 361 milljón íslenskra króna, af þeim peningum sem hann hafði eignast með ólöglegum hætti.

Perúmaðurinn Manuel Burga hafði áður verið sýknaður af því að hafa tekið mútugreiðslur.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir Marin. Hann var fyrrum ríkisstjóri í Sao Paulo og á síðasta ári var hann fundinn sekur í sex af sjö ákæruliðum fyrir peningaþvætti og fjársvik í heimalandi sínu.

Það er aftur á móti ekki enn búið að ákveða sekt eða fangelsvist vegna þess dóms.

Jose Maria Marin er samt ekki búinn að gefast upp og lögfræðingar hans segja að hann ætli að áfrýja dómnum.

Jose Maria Marin afhendir hér Lionel Messi verðlaunin sem besti leikmaður HM í Brasilíu 2014.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×