Fótbolti

Býðst til að kaupa hús fyrir fyrrum fyrirliða landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Eto'o er goðsögn í heimalandi sínu Kamerún.
Samuel Eto'o er goðsögn í heimalandi sínu Kamerún. Vísir/Getty
Fyrrum fyrirliði kamerúnska fótboltalandsliðsins er heimilslaus og í miklum vandræðum en hann fær nú hjálp frá einum frægasta fótboltamanni þjóðarinnar.

Norbert Owona er á sjötugsaldri (67 ára) en hann lék með landsliði Kamerún á sjöunda og áttunda áratugnum. Hann var um tíma fyrirliði landsliðsins.

Nú er staðan á honum hins vegar ekki góð. Norbert Owona er á götunni og glímir líka við veikindi. Slæm staða hans var efni í heimildarmynd og vakti athygli markahæsta leikmanns Kamerún frá upphafi.





Samuel Eto'o er mjög vel stæður eftir flottan fótboltaferil með liðum eins og Barcelona, Internazionale og Chelsea en hann er líka tilbúinn að gefa eitthvað til baka.

Samuel Eto'o heyrði af raunum Owona og heimsótti hann á sjúkrahúsið. Þar lofaði Samuel Eto'o síðan að kaupa hús fyrir Owona. Eto'o gaf Owana einnig 500 þúsund kamerúnska franka eða hundrað þúsund í íslenskum krónum.

Annar landsliðsmaður, Joseph Kamga, hefur verið að berjast fyirr hönd enn eldri landsliðsmanna sem lifa við þröngan kost. Joseph Kamga var í HM-liði Kamerún á Spáni 1982.

Fréttir af rausnarlegu framlagi Samuel Eto'o koma einmitt frá Joseph Kamga.





Owona hafði skrifað til ráðherra landsins og beðið um hjálp. Hann kvartaði þar yfir því að þurfa að lifa eins og dýr og það væri mjög ósanngjarnt að fá svona meðferð frá þjóð sinni.

Owona átti í erfiðleikum með að fá læknishjálp af því að hann var bæði heimilislaus og peningalaus. Allur peningurinn hans hafði farið í að greiða fyrir krabbameinsmeðferð fyrir konu hans og börn.

Samuel Eto'o skoraði 56 mörk í 118 landsleikjum frá 1997 til 2014. Hann er markahæstur frá upphafi og í öðru sæti yfir flesta landsleiki á eftir Rigobert Song (137 landsleikir).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×