Innlent

Nauðsynlegt að setja heildarlög um vernd uppljóstrara

Heimir Már Pétursson skrifar
Nauðsynlegt er að setja heildarlög um vernd uppljóstrara í stjórnsýslunni og hjá einkafyrirtækjum að mati nefndar forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þingmannafrumvörp um vernd sem þessa hafa fjórum sinnum verið lögð fram en ekki náð fram að ganga.

Eðli málsins samkvæmt verður aldrei hægt að veita uppljóstrurum fulla vernd og þeir munu alltaf brenna einhverjar brýr að baki sér með uppljóstrunum sínum. Jón Ólafsson formaður nefndar á vegum forsætisráðherra tekur undir með Evrópuráðinu og OECD sem hafa hvatt til þess að aðildarríki setji heildarlöggjöf í þessum efnum en ákvæði um verdun uppljóstrara má finna hér og þar í íslenskum lögum.

Hvers vegna dugar það ekki?

„Þetta eru í rauninni lög sem vísa til takmarkaðra hópa. Eitthvað af því er jafnvel fallið úr gildi sem varðaði sérstakan saksóknara á sínum tíma og annað slíkt. Þetta er eitthvað sem hefur til dæmis með refsileysi að gera ef menn segja frá einhverju sem þeir eru blandaðir í og annað slíkt,“ segir Jón.

Hann telji almenna samstöðu um að setja þurfi heildarlög sem nái til opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði þótt þingmannafrumvörp um þessi mál hafi í fjórgang ekki náð fram að ganga á árunum 2012 til 16.

„Þannig að það sé bara viðurkennt í samfélaginu og af stjórnvöldum að þegar fólk gefur upplýsingar eða stígur þetta erfiða skref, oft út úr sínum nánasta hópi, að segja frá einhverju sem er annað hvort lögbrot eða eitthvað sem er siðferðislega stórlega ámælisvert, þá njóti það verndar. Það sé alveg sama á hvaða sviði það er,“ segir Jón.

Norðmenn hafa nýlega sett heildarlöggjöf sem þessa og heildarlög um vernd uppljóstrara tóku gildi í Svíþjóð í janúar í fyrra. Starfshópur á vegum stjórnvalda er að skoða þessi mál og reiknar Jón með að uppúr því starfi verði til stjórnarfrumvarp. Ekki sé ástæða til að ætla að lög sem þessi hvetji til uppljóstrana eins og sumir óttist.

„Það er dálítill misskilningur. Vegna þess að afleiðingarnar af því að gera þetta eru alltaf mjög erfiðar fyrir fólk. Það er í rauninni aðeins verið að sneiða af því skulum við segja það sem lög geta verndað fólk fyrir.“

Að vera rekinn úr starfi og svo framvegis?

„Til dæmis já,“ segir Jón Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×