Innlent

Gagnrýnir samspil fasteignamats og skatta

Höskuldur Kári Schram skrifar
Prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands telur að samspil fasteignamats og skatta ýti undir eyðslu sveitarfélaga og gagnrýnir að hækkun íbúðaverðs leiði sjálfkrafa til skattahækkana.

Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga og miðast við reiknað fasteignamat sem er gefið út árlega.

Uppsveiflan á húsnæðismarkaði hefur leitt til þess að fasteignamatið hefur gert lítið annað en hækka á undanförnum árum.

Aukið verðmæti húsnæðis leiðir til hækkunar á sköttum og lækkunar á vaxtabótum þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur heimila taki litlum sem engum breytingum.

Helgi Tómasson prófessor í tölfræði og hagrannsóknum hefur um árabil gagnrýnt þetta kerfi.

Helgi Tómasson, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.
„Það er glæfralegt að vera með skattstofn sem getur stökkbreyst svona á milli ára úr takti við tekjur fólks og þjónustu sveitarfélags. Það er ekki heppilegt,“ segir Helgi.

Helgi segir í grein í Fréttablaðinu í dag að það sé fjarstæðukennt að sveitarstjórnum sé leyft að hækka skatta með sjálfvirkjum hætti á tímum hækkandi fasteignaverðs og nota svo tekjuaukann til að réttlæta aukin úgjöld.

„Ég held að það sé freistnivandi hjá sveitarfélögum að auka útgjöldin ef að þau sjá skattstofninn vaxa. Svo er freistnivandi í bönkum að ota lánsfé að fólki ef að eignir þeirra hafa hækkað. Þessi vandi er þarna bæði í bankakerfinu og á sveitarstjórnarstiginu og hjá öllum þeim sem eru að fá tekjur úr skattstofni sem hegðar sér svona,“ segir Helgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×