Erlent

Um 190 milljarða króna vinningspottur gekk út

Atli Ísleifsson skrifar
Vinningstölurnar voru 28, 70, 5, 62, 65 þar sem „megatalan“ var 5.
Vinningstölurnar voru 28, 70, 5, 62, 65 þar sem „megatalan“ var 5. Getty/Drew Angerer
Vitað er um einn vinningshafa hið minnsta í bandaríska Mega Millions lotteríinu í gær. Vinningspotturinn í útdrætti gærkvöldsins var um 1,6 milljarður Bandaríkjadala, um 190 milljarður íslenskra króna. Lottópotturinn var sá stærsti í sögu Bandaríkjanna.

BBC greinir frá því að einn vinningsmiði hafi selst í Suður-Karólínu. Ekki er útilokað að fleiri vinningsmiðar hafi selst.

Einfaldur miði kostar einn Bandaríkjadal og mynduðust víða langar raðir fólks í verslunum vegna áhugans á útdrættinum.

Vinningstölurnar voru 28, 70, 5, 62, 65 þar sem „megatalan“ var 5. Líkurnar á að vera með réttar tölur eru sagðar einn á móti 300 milljónum.

Skattskyldur

Vinningurinn er skattskyldur og mun vinningshafinn, sé hann á annað borð einn, fá greiddar út 913 milljónir Bandaríkjadala. Einnig er boðið upp að fá vinninginn greiddan út í smærri upphæðum næstu 29 árin.

Mega Millions lotteríið er selt í 44 ríkjum Bandaríkjanna, District of Columbia og Bandarísku jómfrúreyjum. Fyrstu vinningur hafði ekki gengið út síðan í júlí sem skýrir hinn háa vinningspott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×