Umræddum starfsmönnum var tilkynnt um uppsagnirnar í dag og sendi Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi blaðsins, tölvupóst á aðra starfsmenn þar sem greint var frá uppsögnunum.
Í tölvupóstinum segir Kristín að uppsagnirnar komi í framhaldi af flutningum í nýtt húsnæði á Hafnartorgi í upphafi mánaðarins. Nýja húsnæðið hafi skapað hagræði í daglegri framleiðslu. Um leið hafi verkefnum hjá móðurfélaginu fækkað með sölu ýmissa eininga til Sýnar fyrir nokkru.
Ingvi Þór Sæmundsson, sem gegndi stöðu yfirmanns íþróttadeildar á blaðinu, greindi frá tíðindunum á Twitter-síðu sinni í dag. Þar setur hann uppsagnirnar í samhengi við fyrrnefnt húsnæði á Hafnartorgi.
„Fréttablaðið: leigir á dýrasta stað í bænum en segir síðan upp fullt af fólki í "hagræðingaskyni." Eitthvað í þessari jöfnu gengur ekki upp,“ skrifaði Ingvi á Twitter.
Fréttablaðið: leigir á dýrasta stað í bænum en segir síðan upp fullt af fólki í "hagræðingaskyni." Eitthvað í þessari jöfnu gengur ekki upp.
— Ingvi Þór Sæmundsson (@ingvithors) November 29, 2018