Handbolti

HSÍ búið að selja alla sína miða á HM 2019

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sérsveitin verður væntanlega í miklu stuði í München.
Sérsveitin verður væntanlega í miklu stuði í München. vísir/daníel
Búast má við að minnsta kosti 500 Íslendingum á riðlakeppni HM í handbolta í janúar en íslenska liðið spilar sína leiki í München. Þýskaland og Danmörk halda mótið saman.

Handknattleikssamband Íslands greinir frá því á Facebook-síðu sinni að allir 500 miðarnir sem það hafði milligöngu um fyrir HM eru seldir og því má búast við mikilli stemningu á leikjum strákanna okkar í janúar.

Ef einhver fékk ekki miða í gegnum HSÍ en vill komast í stemninguna í Þýskalandi með íslenska liðinu er viðkomandi beint á miðasölu opinberrs söluaðila heimsmeistaramótsins en hana má finna hér.

Strákarnir okkar eru í B-riðli með Evrópumeisturum Spánar, Króatíu, Makedóníu og svo Barein og Japan sem bæði eru með íslenska þjálfara, þá Aron Kristjánsson og Dag Sigurðsson.

Leikirnir fara fram í Ólympíuhöllinni í München þar sem að okkar menn spila fimm leiki á einni viku. Fyrsti leikurinn er á móti Króatíu ellefta janúar og sá síðasti í riðlakeppninni á móti Makedóníu 17. janúar.

Búið er að taka aftur upp milliriðla á HM eftir að einföld útsláttarkeppni var notuð nokkur mót í röð. Komist okkar menn áfram spila þeir í milliriðli eitt í hinni stórglæsilegu Lanxess-höll í Köln þar sem að Final Four í Meistaradeild Evrópu fer fram á hverju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×