Fótbolti

Skellur hjá Heimi í fyrsta leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson verður væntanlega með sína menn í stífum æfingum yfir jól og áramót.
Heimir Hallgrímsson verður væntanlega með sína menn í stífum æfingum yfir jól og áramót. getty/Jan Kruger
Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, fékk skell í fyrsta leik sínum sem þjálfari Al Arabi í Katar en liðið tapaði, 4-0, fyrir ríkjandi Katarmeisturum Al Duhail í deildabikarnum í dag.

Heimamenn í Al Duhail voru 1-0 yfir í hálfleik en bættu svo við þremur mörkum í seinni hálfleik. Það var komið í 3-0 eftir rúma klukkustund og fjórða markið skoraði Brassinn Edmilson Junior á 82. mínútu.

Tapið hefði getað verið stærra en Loukay Ashour, markvörður Al Arabi, varði vítaspyrnu á 21. mínútu leiksins.

Þetta var síðasti leikur Al Arabi á árinu en deildabikarinn í Katar er þannig að liðunum tólf í efstu deild er skipt í tvo sex liða riðla. Al Arabi er nú búið að tapa öllum fjórum leikjunum í A-riðli og situr þar á botninum. Efstu fjögur liðin komast í átta liða úrslit.

Heimir tók við liðinu í síðustu viku og hefur fengið lítinn tíma til að undirbúa sig en það var búið að vinna tvo leiki í röð áður en síðasti þjálfari var rekinn. Liðinu hefur í heildina ekki gengið neitt sérstaklega vel en það er í sjötta sæti katörsku deildarinnar með 21 stig eftir fimmtán umferðir.

Næsti leikur Al Arabi undir stjórn heimis verður tíunda janúar á næsta ári þegar að liðið mætir Al Gharafa í deildinni en það lið er á toppnum í A-riðli deildabikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×