Fótbolti

Enginn leikur hjá Ögmundi eða öðrum í grísku deildinni: Öllu aflýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson. Vísir/Getty
Íslenski markvörðurinn Ögmundur Kristinsson og aðrir leikmenn í grísku súperdeildinni fá óvænt frí um næstu helgi eftir að öllum leikjum deildarinnar um næstu helgi var frestað.

Ástæðan er ekki skemmtileg því gríska knattspyrnusambandið ákvað að aflýsa öllum leikjum um næstu helgi eftir að ráðist var á dómara fyrir utan heimili hans.

FIFA-dómarinn Thanasis Tzilos endaði á sjúkrahúsi eftir árásina á fimmtudaginn og þurfti að sauma spor í höfuð og fót hans. Í framhaldinu ákváðu dómarar deildarinnar að fara í verkfall.





Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðist er á dómara í Grikklandi. „Við lýsum yfir reiði okkar og vanþóknun yfir þessari huglausu árás á kollega okkar Thanasis Tzilos sem og þessar endurteknu árásir á dómara. Við munum ekki leyfa þessu fólki að halda áfram að reyna að skelfa okkur,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.





Síðasti leikurinn sem Thanasis Tzilos dæmdi var leikur Olympiakos og Xanthi sem endaði með 1-1 jafntefli.

Stóru klúbbarnir Olympiakos og Panathinaikos hafa báðir fordæmt árásina. „Grískur fótbolti kemst ekki lægra,“ sagði talsmaður Olympiakos en kollegi hans hjá Panathinaikos sagði: „Mafían í grískum fótbolti lifir enn góðu og glæstu lífi.“





Ögmundur Kristinsson og félagar í AE Larisa eru í 11. sæti af 16 liðum og áttu að mæta Olympiakos á útivelli á Þorláksmessu.

Það hefur mikið gengið á í grískum fótbolta undanfarin ár og nú síðast í mars var deildinni aflýst eftir að forseti PAOK Salonika hljóp inn á völlinn eftir leik með byssu í hendinni. Tímabilið 2014-15 var deildin einni stöðvuð í þrígang.

Í sumar var síðan ákveðið að erlendir dómarar myndu dæmda stóru leikina eftir nokkur umdeild atvik á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×