Fótbolti

Neymar ekki lengur einn af tíu bestu fótboltamönnum heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar Meistaradeildarmarki á móti PSG.
Neymar fagnar Meistaradeildarmarki á móti PSG. Vísir/Getty
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur fallið niður metorðastigann á árinu 2018 ef marka má val Guardian á hundrað bestu knattspyrnumönnum heims.

Guardian notar síðustu dagana fyrir jól til að telja niður og í dag birtu þeir þá sem skipa sæti 11. til 20. á listanum.

Þar kom í ljós Neymar nær ekki inn á topp tíu því hann er í 11. sætinu á undan Raphaël Varane, miðverði Real Madrid.

Neymar fellur niður um átta sæti á listanum því hann var þriðji í valinu 2017 og í 5. sæti árið 2016. Neymar var þriðji á 2015-listanum og í 7. sæti á 2014-listanum.  

Síðast komst Neymar ekki inn á topp tíu fyrir sex árum en hann var í 13. sæti á listanum fyrir árið 2012.





Neymar spilar með franska stórliðinu Paris St-Germain og er með 16 mörk og 8 stoðsendingar í 19 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili. Ekki slæm tölfræði þar á ferðinni ekki síst þar sem hann er með 5 mörk og 2 stoðsendingar í 6 leikjum í Meistaradeildinni.

Neymar fékk aftur á móti mestu gagnrýnina í ár fyrir framkomu sína á HM í Rússlandi þar sem hann lá hvað eftir annað emjandi í grasinu hvort sem menn komu mikið við hann eða ekki.

Neymar var með 2 mörk og 2 stoðsendingar í fimm leikjum á HM en Brasilíska liðið datt út fyrir Belgíu í átta liða úrslitin keppninnar. Belgía vann leikinn 2-1 og Neymar náði hvorki að skora eða leggja upp mark í leiknum.

Leikmenn í 11. til 20. sæti á lista Guardian: (Allan listann má finna hér)

11. sæti - Neymar, Paris St-Germain

12. sæti - Raphaël Varane, Real Madrid

13. sæti - Ivan Rakitic, Barcelona

14. sæti - Luis Suárez, Barcelona

15. sæti - Sergio Agüero, Manchester City

16. sæti - Paul Pogba, Manchester United

17. sæti - Sergio Ramos, Real Madrid

18. sæti - Marcelo, Real Madrid

19. sæti - Sadio Mané, Liverpool

20. sæti - David Silva, Manchester City




Fleiri fréttir

Sjá meira


×