Erlent

Rannsaka doktorsgráðu Grace Mugabe

Atli Ísleifsson skrifar
Grace Mugabe öðlaðist doktorsgráðu sína frá Háskóla Simbabve árið 2014
Grace Mugabe öðlaðist doktorsgráðu sína frá Háskóla Simbabve árið 2014 Vísir/AFP
Stofnun sem rannsakar spillingu í Simbabve kannar nú hvort að fyrrverandi forsetafrúin Grace Mugabe hafi öðlast doktorsgráðu sína með sviksamlegum hætti.

Kennarar við Háskóla Simbabve skiluðu í síðustu viku undirskriftarsöfnun þar sem farið var fram á að málið yrði rannsakað. BBC greinir frá.

Grace Mugabe hlaut doktorsgráðu sína frá skólanum árið 2014, einungis nokkrum mánuðum eftir að hafa skráð sig í skólann. Vanalega þarf að skila margra ára rannsóknarvinnu til að öðlast slíka gráðu. Doktorsritgerð Bugabe hefur ekki verið gerð opinber.

Í frétt BBC segir að blaðið Zimbabwe Independent hafi eftir kennurum við skólann að þeir hafi ekki haft neina vitneskju um útskrift forsetafrúarinnar á sínum tíma, fyrr en eftir að fjölmiðlar sögðu frá málinu.

Greiddi leið Grace Mugabe

Robert Mugabe, eiginmanni Grace, var bolað úr embætti forseta Simbabve á síðasta ári, eftir að hafa stýrt landinu í 37 ár, fyrst sem forsætisráðherra og svo sem forseti.

Emmerson Mnangagwa, sem Mubage hafði nýverið rekið úr stóli varaforseta, tók við forsetaembættinu í landinu eftir að herinn átti þátt í að koma Mugabe frá.

Talið var að Robert Mugabe hafi með brottrekstri Mnangagwa verið að greiða leið eiginkonunnar Grace til að taka við forsetaembættinu af honum sjálfum síðar meir.


Tengdar fréttir

Mnangagwa sver embættiseið

Emmerson Mnangagwa tekur við embættinu af Robert Mugabe sem sagði af sér í gær eftir að hafa verið bolað úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×