Sport

Norður-Kórea sendir lið á vetrarólympíuleikana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Friðarviðræðurnar hafa vakið heimsathygli og er um lítið annað skrifað í blöðunum í Kóreu.
Friðarviðræðurnar hafa vakið heimsathygli og er um lítið annað skrifað í blöðunum í Kóreu. vísir/getty
Fyrstu friðarviðræður Norður og Suður-Kóreu í um tvö ár hafa skilað því að Norður-Kórea hefur ákveðið að senda lið á vetrarólympíuleikana sem verða haldnir í Suður-Kóreu í næsta mánuði.

Norður-Kórea mun senda íþróttamenn, forkólfa úr íþróttalífinu sem og stuðningsmenn.

Suður-Kórea mun einnig standa fyrir endurfundum fyrir fjölskyldur sem splundruðust í Kóreustríðinu. Það er mikið tilfinningamál sem Suður-Kórea hefur barist lengi fyrir.

Það er einnig verið að skoða þann möguleika að Kóreuþjóðirnar labbi saman inn á völlinn á opnunarhátíðinni. Suður-Kóreumenn hafa stungið upp á því en Norður-Kórea á eftir að svara því boði. Það gerðist síðast árið 2006 að þjóðirnar gengu saman inn á völlinn á vetrarólympíuleikunum.

Þessi niðurstaða sem þegar hefur náðst er ótrúleg að margra mati og gæti lagt grunninn að farsælara sambandi þjóðanna í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×