Erlent

Hæstráðendur sóttir til saka vegna sjálfsvíga starfsmanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Didier Lombard, fyrrverandi forstjóri France Telecom.
Didier Lombard, fyrrverandi forstjóri France Telecom. Vísir/AFP
Fyrrverandi forstjóri samskiptarisans France Telecom, sem nú heitir Orange S.A., auk sex annarra hæstráðandi hjá fyrirtækinu hafa verið sóttir til saka vegna sjálfsvígshrinu í starfsmannahópi fyrirtækisins.

Saksóknarar hafa lengi haldið því fram að umræddir menn hafi með stjórnunarháttum sínum stuðlað að hryllilegu vinnuumhverfi, sem byggði á stöðugu áreiti og óyfirstíganlegum kröfum til starfsmanna. Nítján sjálfsvíg starfsmanna France Telecom frá árinu 2008 hafa verið rakin til þessarar starfsmannastefnu fyrirtækisins.

Didier Lombard, sem þá gegndi starfi forstjóra, og áðurnefndir sex meðstjórnendur hafa ætíð neitað því að eiga nokkurn hlut í sjálfsvígum starfsmannanna. Þeir hafna því til að mynda að niðurskurður hjá fyrirtækinu í kjölfar einkavæðingar þess, sem hafði í för með sér gríðarlegt vinnuálag á starfsmenn, hafi haft neikvæð áhrif á andlega líðan þeirra starfsmanna sem féllu að lokum fyrir eigin hendi.

Frá árinu 2008 hafa a.m.k. 19 starfsmenn fyrirtækisins framið sjálfsvíg, 12 gert tilraun til þess og 8 til viðbótar glíma við þunglyndi.

Verði sjömenningarnir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi auk hárrar fjársektar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×