Innlent

Orsök sprengingar ekki fundin en lögreglan er með kenningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi sprengingarinnar í Kópavogi.
Frá vettvangi sprengingarinnar í Kópavogi. Vísir/Elísabet Inga
Lögreglan hefur enn ekki fundið út hvað olli sprengingu í bílskúr í Kópavogi síðastliðinn laugardagsmorgun.

Upp úr klukkan ellefu á laugardagsmorgun barst slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tilkynning um sprengingu í bílskúr  sem stendur við einbýlishús á Þinghólsbraut.

Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn logaði eldurinn í bílskúrnum og sömuleiðis í kjallaranum, sem tók þó skamma stund að slökkva.

Til marks um kraftinn, þegar sprengingin varð, þá þeyttust allar hurðir af bílskúrnum og varð tjón á húsi og innanstokksmunum mikið.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri í Kópavogi, segir lögreglu ekki vera búna að finna út hvað olli sprengingunni. Lögreglan sé þó með kenningu um hvað gerðist.

Við skoðun á bílskúrnum fannst gaskútur á efri hæðinni sem var ósprunginn.

Telur lögregla möguleika á því að kúturinn hafi lekið gasi í einhvern tíma. Frystikista eða kæliskápur hefði svo geta gefið frá sér neista sem var nægjanlegur til að valda þessari miklu sprengingu sökum gaslekans.

Eins og áður segir er þó ekki búið að finna orsök sprengingarinnar og er lögregla enn með málið til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×