Innlent

Íslenska landsliðið í vélmennaforritun lenti í öðru sæti á heimsmeistaramótinu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Íslenska landsliðið í vélmennaforritun hreppti annað sætið á heimsmeistaramóti sem haldið var í Mexíkó. 193 lið börðust um titilinn, en vélmennið sjálft týndist í flugi að móti loknu.

„Við vorum að keppa í vélmennaforritunarkeppni þar sem við tókumst á við 192 önnur lönd í að  leysa þraut tengdri orku. Tæplega tveimur mánuðum fyrir keppnina fengum við sendan kassa með hlutum, járnstöngum, vírum, móturum og hinu og þessu sem við þurftum að setja saman til að leysa þrautina,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, þjálfari liðsins.

„Okkur gekk bara alveg sæmilega vel. Við náðum öðru sæti sem við bjuggumst ekki við. Við vorum svolítið hissa. Vélmennið hét, í anda liðsins: Þetta reddast. Því við tókum vandamálunum eins og þau komu og leystum þau,“ segir Dýrleif Birna Sveinsdóttir, keppandi.  

Liðið gat þó ekki sýnt okkur vélmennið þar sem þau hafa ekki hugmynd um afdrif þess.

Hvar er vélmennið? 

„Við vitum það ekki alveg. Flugfélagið svarar okkur ekki og við höldum að þeir haldi því í gíslingu.  En það er mikil óvissa núna. Það koma ekki með okkur til landsins. Við söknum þess samt mjög mikið og vonumst til að sjá það bráðlega aftur.“

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×