Innlent

Fjöldi þingmanna fer ekki að reglum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Endurgreiðslur til þingmanna sem ekki fara eftir umræddum reglum eru yfir 150 milljónir á undanförnum fjórum árum.
Endurgreiðslur til þingmanna sem ekki fara eftir umræddum reglum eru yfir 150 milljónir á undanförnum fjórum árum. VÍSIR/ERNIR
Fjöldi þingmanna hefur ekki farið að reglum Alþingis um endurgreiðslu aksturskostnaðar. Reglur forsætisnefndar gera ráð fyrir að þingmenn sem aka umfram 15 þúsund kílómetra á ári vegna vinnu sinnar skuli færa sig yfir á bílaleigubíl sem Alþingi leggur til.

„Okkur reiknast svo til að við 15 þúsund kílómetra markið verði hagkvæmara fyrir þingið að leigja bíl fyrir þingmanninn en greiða fyrir akstur á einkabíl hans,“ segir Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri þingsins, um umrætt viðmið í reglum þingsins.

Aðspurður segir Karl regluna setta til að auka hagkvæmni fyrir Alþingi og á undanförnum árum mun því hafa verið beint til þeirra þingmanna sem mest hafa ekið að færa sig yfir á bílaleigubíl.

Sjá einnig: Ætla að taka reglur um þingfararkostnað til skoðunar

„Sumir hafa orðið við þeim tilmælum en aðrir ekki. Við höfum skilning á því að þeir þurfi einhvern aðlögunartíma,“ segir Karl.

Samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar er endurgreiðsla fyrir 15 þúsund kílómetra akstur um 1,5 milljónir króna. Miðað við hagkvæmnirök þingsins má ætla að þingmaðurinn taki til sín þann mismun sem þingið hefði sparað með notkun bílaleigubíls þegar farið er upp fyrir þá fjárhæð. Ekki hefur verið tekið saman hve mikið þingið hefði sparað færu allir þingmenn eftir reglunum.

Endurgreiðslur til þingmanna sem ekki fara eftir umræddum reglum eru yfir 150 milljónir á undanförnum fjórum árum samkvæmt svari þingsins við fyrirspurn þingmannsins Björns Levís Gunnarssonar.

Sá þingmaður sem vermt hefur toppsætið frá 2014 hefur fengið 19,9 milljónir skattfrjálst á árunum 2014 til 2017 vegna aksturs á eigin bíl.

Í 17. gr. laga um þingfararkostnað kemur fram að umræddar endurgreiðslur eru skattfrjálsar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×