„Við sjáum hvað gerist,“ sagði Trump á blaðamannafundi með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, nú í kvöld. Hann segði einnig og enn og aftur að um nornaveiðar væri að ræða og rannsóknin væri runnin undan rifjum Demókrata vegna taps þeirra í kosningunum.
Staðreyndin er þó sú að Alríkislögregla Bandaríkjanna hóf rannsóknina áður en kosningarnar voru haldnar og að minnst tveir aðilar sem komu að framboði Trump hafa játað á sig glæpi. Meðal annars að hafa logið að rannsakendum varðandi samskipti þeirra við rússneska embættismenn.
Sjá einnig: Mueller vill ræða við Trump
Í byrjun vikunnar bárust fregnir af því að rannsakendur Mueller hefðu sett sig í samband við lögmenn Trump og að þeir væru að ræða leiðir til að koma í veg fyrir viðtal þeirra við Trump eða takmarka það. Meðal þess sem þeir hafa verið að skoða er að hvort Trump gæti mögulega svarað spurningum rannsakenda skriflega.
Annar möguleiki er að Trump sendi frá sér eiðsvarna yfirlýsingu í stað þess að setjast niður með rannsakendum.
Trump tísti um málið fyrr í dag og sagði að um „umfangsmestu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna“ væri að ræða. Framboð hans hefði ekkert samráð haft með yfirvöldum í Rússlandi og að „allir, þar á meðal Demókratar“ vissu það. Rússar og heimurinn allur væri að hlæja að heimskunni sem þær væru að fylgjast með.
Þá kallaði forsetinn eftir því að Repúblikanar „tækju loks völdin yfir rannsókninni“.
The single greatest Witch Hunt in American history continues. There was no collusion, everybody including the Dems knows there was no collusion, & yet on and on it goes. Russia & the world is laughing at the stupidity they are witnessing. Republicans should finally take control!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 10, 2018
Sjá einnig: Óttast brottrekstur Mueller í kjölfar árása
Á meðan leiðtogar Repúblikana lýsa yfir stuðningi við Mueller og störf hans eru þingmenn og aðilar í fjölmiðlum ytra að kalla eftir því þeir sem standa að Rússarannsókninni séu andsnúnir Trump og hafi jafnvel verið það lengi. Einhverjir hafa jafnvel kallað eftir því að gervallri forystu Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, verði skipt út og að nýr sérstakur saksóknari verði skipaður til að rannsaka Alríkislögregluna.