Innlent

Adam&Evu-þjófarnir eftirlýstir um allt land

Birgir Olgeirsson skrifar
Inngangur að versluninni varð fyrir stórskemmdum í þessum innbroti.
Inngangur að versluninni varð fyrir stórskemmdum í þessum innbroti. visir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst eftir tveimur manneskjum í tengslum við rannsókn á innbroti í kynlífstækjahjálparverslunina Adam og Evu við Kleppsveg í Reykjavík fyrir viku.

Innbrotsþjófarnir tveir bökkuðu lítilli bifreið ítrekað á hurð verslunarinnar snemma síðastliðinn föstudagsmorgun. Brutu þeir þannig hurðina og fóru inn í verslunina þar sem þeir höfðu kynlífsdúkku á brott ásamt titrurum og sleipiefni.

Þjófarnir tveir er enn ófundnir en lögreglan hefur tvo einstaklinga undir grun. Hefur lögreglan sent upplýsingar um einstaklingana tvo til allra lögregluembætta á landinu. Engin hefur verið yfirheyrður vegna málsins með stöðu sakbornings.

Bíllinn sem þjófarnir notuðu við innbrotið var af gerðinni Hyundai i10. Bílnum höfðu þjófarnir stolið mánudaginn 17. september með því að fara inn í fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og hafa lykla að bílnum þaðan á brott.

Lögreglan fann bílinn í stæði við Glæsibæ í Reykjavík upp úr klukkan þrjú síðastliðinn föstudag en þjófarnir höfðu skilið kynlífsdúkkuna eftir í bílnum.

Ásamt því að stela bílnum höfðu þjófarnir skrúfað á hann stolnum númeraplötum.

Var bíllinn og innihald hans sent til rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi, vill ekki gefa upp hvað sú rannsókn leiddi í ljós en segir lögregluna hafa tvo einstaklinga undir grun.

Í fyrstu frétt af þjófnaðinum  var haldið fram að um tvær stúlkur væri að ræða. Við nánari skoðun kom í ljós að þjófarnir gætu allt eins verið karl og kona, eða jafnvel tveir karlar og annar þeirra með hárkollu, líkt og getgátur voru um.

Guðmundur Páll sagðist ekki geta gefið upp að svo stöddu hvort lögreglan væri búin að lýsa eftir tveimur konum, konu og karli eða tveimur körlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×