Körfubolti

Helena: Vorum kannski ekki nógu vel undirbúnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Helena Sverrisdóttir er leikjahæsti leikmaður Íslands
Helena Sverrisdóttir er leikjahæsti leikmaður Íslands vísir/daníel
Helena Sverrisdóttir segir sóknarleik Íslands allt of stirðan og liðið þurfi að finna betri lausnir þar á. Ísland tapaði með þrjátíu stigum fyrir Slóvakíu í undankeppni EM 2019 Laugardalshöll í dag.

„Mér fannst við spila ágætlega í fyrri hálfleik, eins og er svolítið oft okkar saga, en sóknin var bara rosalega stirð í seinni hálfeik og það var rosalega lítið flæði hjá okkur. Þá datt orkan svolítið niður varnarmegin og því fór sem fór,“ sagði Helena í leikslok í Laugardalshöll í dag.

Sóknarleikur íslenska liðsins var slæmur í leiknum og nýtingin alls ekki góð, liðið var með 28 prósenta skotnýtingu í leiknum.

„Við erum að fá erfið skot og reyna að þröngva einn á einn. Við þurfum greinilega að skoða þetta aðeins betur og sjá hvort við getum fundið einhver betri sóknarkerfi til þess að létta á. Þær voru að berjast vel í gegnum öll pikk og þá stirnaði allt þar sem við vorum ekki að fá það sem við héldum að við myndum fá.“

Íslenska liðið var inni í leiknum alveg fram í upphaf fjórða leikhluta þegar slóvakíska liðið tók áhlaup sem kláraði fyrir þær leikinn.

„Við vissum að þær eru hörku lið og að um leið og við settum saman nokkur mistök þá myndu þær refsa okkur. Við sáum það núna, þegar við vorum slappar í langan tíma þá voru þær fljótar að setja stigin upp í þetta hátt.“

„Mér fannst þetta ekki alveg nógu gott, mér fannst við vera að berjast en vorum kannski ekki alveg nógu vel undirbúnar fyrir svona vörn,“ sagði Helena Sverrisdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×