Fótbolti

The Guardian-listinn: Luka Modric besti fótboltamaður heims árið 2018

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luka Modric kom Króatíu í úrslitaleik HM.
Luka Modric kom Króatíu í úrslitaleik HM. getty/Matthew Ashton
Luka Modric er besti fótboltamaður heims árið 2018 samkvæmt The Guardian-listanum en efstu sætin voru birt í dag. Dómnefnd enska blaðsins telur 225 sérfræðinga frá öllum heimshornum en í henni eru leikmenn, þjálfarar og blaðamenn.

Modric fékk Gullboltann á dögunum og var þá fyrsti maðurinn til að rjúfa tíu ára einokun Cristiano Ronaldo og Lionel Messi á verðlaununum en þeir eru í öðru og þriðja sæti eftir Modric á Guardian-listanum.

Kylian Mbappé er í fjórða sæti, Mohamed Salah í fimmta sæti og á eftir honum koma þeim Antonine Griezmann, Eden Hazard, Kevin De Bruyne, Harry Kane og N'Golo Kanté. Þrír af efstu tíu voru í heimsmeistaraliði Frakklands í sumar.

Neymar er í ellefta sæti listans sem kemur kannski aðeins á óvart og Paul Pogba er í sextánda sæti á undan Sergio Ramos, Marcelo og Sadio Mané. Liverpool á þrjá á topp 25 því Virgil van Dijk er í 24. sæti listans.

Gylfi Þór Sigurðsson er ekki á meðal 100 efstu en Christian Eriksen er efsti Norðurlandabúinn í 36. sæti listans.

The Guardian er einnig byrjað að vera með sama lista í kvennaflokki og þar var Sara Björk Gunnarsdóttir í 31. sæti og var þar fyrir ofan stórstjörnur í bransanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×