Enski boltinn

Fullt af leikmönnum Liverpool á sölulista

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Danny Ings á ekki framtíð á Anfield
Danny Ings á ekki framtíð á Anfield vísir/getty
Liverpool mun skipta um ham á leikmannamarkaðnum og selja nokkra leikmenn áður en lokað verður fyrir félagaskipti þann 10.ágúst næstkomandi.

Jurgen Klopp hefur verið afar duglegur við að versla í sumar en liðið hefur fest kaup á dýrasta markverði sögunnar, Alisson Becker, auk þess sem þeir Naby Keita, Fabinho og Xherdan Shaqiri eru komnir til félagsins.

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að nú muni Klopp hefjast handa við að losa sig við leikmenn sem hann telur sig ekki hafa mikil not fyrir.

Ljóst er að í kjölfar kaupanna á Alisson verður annað hvort Simon Mignolet eða Loris Karius látinn fara. Sömuleiðis er krafta Pedro Chirivella, Sheyi Ojo, Marko Grujic, Lazar Markovic og Ben Woodburn ekki óskað á komandi leiktíð en einhverjir af þessum leikmönnum munu þó aðeins verða lánaðir í burtu, fyrst um sinn hið minnsta.

Divock Origi og Danny Ings eru hins vegar leikmenn sem Liverpool vill selja í sumar til að fá góðan pening í kassann.

Origi hefur verið orðaður við spænska úrvalsdeildarliðið Valencia og eru þeir sagðir tilbúnir að borga 26 milljónir punda fyrir belgíska framherjann sem varði síðustu leiktíð á láni hjá Wolfsburg.

Ings er sömuleiðis eftirsóttur en Newcastle, Crystal Palace, West Ham og Southampton hafa öll áhuga á Ings en þurfa að vera tilbúin að punga út 20 milljónum punda fyrir þennan 26 ára gamla framherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×