Fótbolti

Jóhann Berg: Get fullvissað fólk um að við munum ná okkar besta aftur

Henry Birgir Gunnarsson í Saint-Brieuc skrifar
Jóhann Berg er klár í að berjast við Frakkana.
Jóhann Berg er klár í að berjast við Frakkana.
Það var létt yfir Jóhanni Berg Guðmundssyni fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Saint-Brieuc í dag.

„Það verður gríðarlega skemmtilegt að spila við heimsmeistarana. Þetta verður skemmtilegur leikur en að sama skapi mjög erfiður,“ segir Jóhann Berg yfirvegaður en hann er ánægður fá leik gegn Frökkunum núna.

„Við vitum að þó svo við höfum tapað síðustu tveimur leikjum að þá var þetta alltaf að fara að verða afar erfiður leikur enda besta lið í heimi. Við viljum standa okkur vel og stríða heimsmeisturunum aðeins.“

Jóhann Berg segir að þó svo liðið hafi orðið fyrir áföllum í fyrstu leikjum Þjóðadeildarinnar að þá sé liðið enn með fínt sjálfstraust.

„Ég missti því miður af þessum leikjum en það er búið núna og við verðum að byrja upp á nýtt. Við vitum að við getum betur og munum gera það. Það er enn sama stemning í hópnum og ég á ekki von á öðru en að við rífum okkur í gang þó svo þjóðin sé ekki alveg viss um það. Ég get fullvissað fólk um að við munum ná okkar besta aftur,“ segir kantmaðurinn sem mætir til leiks með mikið sjálfstraust eftir að hafa spilað vel í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hef spilað bara nokkuð vel og er ánægður með minn leik. Vonandi get ég hjálpað landsliðinu við að koma okkur aftur á beinu brautina.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×