Fótbolti

Þrír stjörnuleikmenn vilja rifta samningi í kjölfar árásar stuðningsmanna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
William Carvalho, annar frá vinstri í efri röð og Bruno Fernandes, lengst til hægri í neðri röð.
William Carvalho, annar frá vinstri í efri röð og Bruno Fernandes, lengst til hægri í neðri röð. vísir/getty
William Carvalho, Gelson Martins og Bruno Fernandes ætla að rifta samningum sínum við portúgalska stórveldið Sporting Lissabon.

Upplausn ríkir hjá félaginu í kjölfar árásar stuðningsmanna félagsins á leikmenn og starfsmenn um miðjan maímánuð og ljóst að hún mun hafa mikil áhrif á framtíð félagsins.

Þremenningarnir hafa allir sent félaginu skilaboð um að þeir neyðist til að segja upp samning en þeir eiga það einnig sameiginlegt að vera að undirbúa sig fyrir HM í Rússlandi með Evrópumeisturum Portúgals.

Ljóst er að mörg stór lið í Evrópu munu renna hýru auga til þess að geta fengið þessa öflugu leikmenn frítt en William Carvalho hefur verið sterklega orðaður við Everton að undanförnu eftir að Marco Silva tók við stjórnartaumunum á Goodison Park en þeir unnu saman hjá Sporting á sínum tíma.

Jorge Jesus stýrði Sporting á síðustu leiktíð en hann sagði upp störfum, skömmu eftir að tímabilinu lauk. Þá hefur Rui Patricio gefið út að hann muni yfirgefa félagið í kjölfar þess sem á undan er gengið.

Mikil óánægja var með árangur Sporting á nýafstaðinni leiktíð en liðið missti af sæti í Meistaradeild Evrópu með tapi gegn Maritimo í lokaumferðinni og tapaði svo bikarúrslitaleik gegn portúgalska smáliðinu Aves.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn réðust á leikmenn Sporting

Sporting frá Lissabon ætlar að spila bikarúrslitaleikinn um næstu helgi þó svo menn þar á bæ séu í áfalli eftir að stuðningsmenn félagsins réðust á leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×