Innlent

Vildu ekki beita þvingunum en verða að virkja 17. greinina til að tryggja lágmarksmönnun

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Linda Kristmundsdóttir er framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans. Hún segist ekki vilja beita þvingunum en spítalanum sé skylt að tryggja öryggi og lágmarksmönnun.
Linda Kristmundsdóttir er framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans. Hún segist ekki vilja beita þvingunum en spítalanum sé skylt að tryggja öryggi og lágmarksmönnun. MYND/LANDSPÍTALI
„Við vildum helst ekki beita þessari 17. grein en við verðum að gera það núna,“ segir Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna-og barnasviðs Landspítalans um þau úrræði sem spítalinn neyðist til þess að grípa til í ljósmæðradeilunni til þess að tryggja öryggi skjólstæðinga og grunnmönnun.

Samninganefnd ríkisins lagði fram tilboð á samningafundi í gær sem ljósmæður höfnuðu. Þær fara fram á 17-18% launahækkun.

Þegar uppsagnir tólf ljósmæðra tóku gildi þann 1. júní fór í gang neyðaráætlun sem hefur dugað til fram til þessa. Í neyðaráætluninni felst að útskrifa konur og nýbura fyrr og nota sjúkrahúsin í nágrannasveitarfélögunum; á Selfossi, Keflavík og Akranesi.

„Okkur hefur gengið erfiðlega að manna vaktirnar og þá sérstaklega núna síðustu daga og við sáum fram á að næsta helgi yrði okkur mjög erfið. Við verðum náttúrulega að hafa ákveðna grunnmönnun á vöktunum,“ segir Linda í samtali við fréttastofu.

 

Ljósmæður fara fram á 17-18% launahækkun.fréttablaðið/ernir
Í dag var blásið til fundar með ljósmæðrum á Kvenna- og barnasviði þar sem þeim var tilkynnt að 17. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins væri virkjuð. Linda segir að þau hefðu reynt að forðast það í lengstu lög að beita þvingunum og nauðung en þetta úrræði væri nauðsynlegt til þess að tryggja mönnun um næstu helgi og í næstu viku.

„Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.“

Yfirvinnubann ljósmæðra tekur gildi á miðvikudaginn að öllu óbreyttu og þá fellur þessi 17. grein út segir Linda, enda sé um skammtímaúrræði að ræða.

Linda segir að ástandið á á deildinni sé alvarlegt. Það hafi vantað í fjórar fullar stöður á meðgöngu-og sængurlegudeild áður en þessar tólf uppsagnir tóku gildi. Þá séu auk þess nokkrar ljósmæður í orlofi.

„Þetta er bara orðin þung staða. Þetta er vont fyrir alla. Þetta er vont fyrir fjölskyldurnar í landinu og vont fyrir starfsmenn.“

Hvernig er hljóðið í skjólstæðingum ykkar?

„Já við heyrum það á ófrískum konum og feðrum sem eiga von á barni, jafnvel ömmum og öfum og öllum mögulegum að fólk er bara áhyggjufullt og okkur finnst það leitt og erfitt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×