Erlent

Húsleit hjá R. Kelly vegna meintra brota á byggingarreglugerð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
R. Kelly er í vondum málum.
R. Kelly er í vondum málum. Vísir/Getty

Yfirvöld í Chicago-borg í Bandaríkjunum réðust í húsleit í upptökuveri tónlistarmannsins R. Kelly í gær vegna meintra brota á byggingarreglugerð. Tónlistarmaðurinn stendur nú frammi fyrir fjölda rannsókna eftir að heimildarmynd um hann var sýnd í Bandaríkjunum.



Borgarstarfsmönnum Chicago grunar að upptökuverið hafi verið nýtt sem híbýli sem er óheimilt þar sem deiliskipulag svæðisins þar sem upptökuverið er staðsett gerir ekki ráð fyrir íbúðarhúsnæði á svæðinu. Þá fundu starfsmennirnir einnig merki um að ráðist hafi verið í framkvæmdir í upptökuverinu sem ekki hafi verið fengin heimild fyrir.



Lögmaður R. Kelly segir að enginn hafi búið í upptökuverinu en það þurfi ekki að koma á óvart að rúm og annar svefnbúnaður hafi fundist þar, enda mikilvægt að rými sé í upptökuverum fyrir afslöppun.



Yfirvöld í Chicago sem og í Atlanta hafa hafið nýjar rannsóknir á ásökunum kvenna sem koma fram í heimildarmyndinni Surviving R. Kelly sem sýnd var á dögunum.



Í myndinni er rætt við fórnarlömb rapparans en hann hefur verið sakaður um að hafa misnotað fjölda kvenna. Margar þeirra sem hafa stigið fram segja rapparann hafa haldið sér gegn vilja sínum í „sértrúarsöfnuði“ þar sem stúlkurnar voru neyddar til þess að stunda kynlíf með rapparanum og kalla hann „pabba“. Yngstu fórnarlömbin eru sögð hafa verið fjórtán ára gamlar.


Tengdar fréttir

„Þetta skrímsli er faðir minn“

Joann Kelly, dóttir rapparans R. Kelly, tjáði sig í fyrsta skipti um ásakanirnar í garð föður síns í Instagram-sögu sinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×