Martin Hermannsson var stigahæstur á vellinum þrátt fyrir að vera í tapliði þegar Alba Berlin sótti Partizan Belgrade heim í EuroCup í kvöld.
Martin hefur farið fyrir liði Berlínarmanna þegar hann er heill og þar var enginn munur á í kvöld. Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði 16 stig í 78-66 tapi Berlínar.
Stigahæsti maður heimamanna var Vanja Marinkovic með 14 stig.
Heimamenn voru með forystuna allan leikinn, þeir leiddu 37-28 í hálfleik og náðu að sigla sigrinum heim.
Leikurinn var annar leikur Alba Berlín í 16 liða úrslitunum, en í EuroCup eru þau spiluð sem riðlakeppni, fjórir fjögurra liða riðlar. Berlín vann fyrsta leikinn í riðlinum gegn Mónakó. Mónakó vann Rytas Vilnius í kvöld svo nú eru öll lið riðilsins með einn sigur og eitt tap.

