Abderraouf Cherif, heilbrigðisráðherra Túnis, hefur sagt af sér í kjölfar dauða ellefu ungbarna á sjúkrahúsi í höfuðborginni Túnisborg.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu þar í landi liggja fyrir upplýsingar um að börnin hafi öll látist af völdum blóðsýkingarlosts á fimmtudag og föstudag fyrr í vikunni.
Forsætisráðherrann Youssef Chahed segir að ráðist verði í víðtæka rannsókn vegna málsins, sem taki til heilbrigðisstofnana, lyfja- og heilbrigðisgeira landsins.
Cherif var skipaður í embætti heilbrigðisráðherra fyrir einungis fjórum mánuðum.
Samtök barnalækna í Túnis segja að sýkingin hafi komið til vegna skemmdra efna sem hafi verið sprauð í æð. Þá hafa samtökin jafnframt gagnrýnt starfsaðstæður lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna í landinu.
Í frétt BBC segir að Túnisbúar hafi margir lýst yfir óánægju með gæði heilbrigðisþjónustunnar í landinu eftir að forsetanum Zine El-Abidine Ben Ali var steypt árið 2011. Hafa reglulega borist fréttir af lyfjaskorti í landinu og niðurskurði til heilbrigðismála.
