Enski boltinn

Pep bjóst við að Silva myndi lenda í vandræðum á Englandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guardiola hafði ekki mikla trú á Silva
Guardiola hafði ekki mikla trú á Silva vísir/getty
David Silva mun klæðast Manchester City búningnum í 400. skipti þegar City mætir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í sunnudaginn. Það höfðu samt ekki allir trú á því að Silva myndi slá í gegn á Englandi.

Síðan Silva gekk til liðs við City árið 2010 hefur hann unnið fjóra meistaratitla, fjóra deildarbikartitla og FA-bikarinn í tvö skipti. Hann er fyrir löngu síðan orðin goðsögn hjá stuðningsmönnum City en Pep Guardiola, þjálfari City, viðurkennir í viðtali við BBC að hann hafi búist við að Silva myndi lenda í vandræðum í enska boltanum.

„Sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér," sagði Guardiola sem bætti við að Silva væri einn af greindustu leikmönnum sem hann hafi séð.

„Hreyfingar hans á litlu svæði, þar er hann mjög góður og einn af þeim bestu."

„Hann er smávaxinn, lítill leikmaður sem hleypur ekki á milli vítateiga og miðað við þá hugmynd sem ég hafði um ensku deildina þá bjóst ég við að hann myndi þjást."

„Það var mín fyrsta hugsun. Það er hægt að leika vel á einu tímabili en hann hefur gert það í tíu tímabil, það er magnað. Hann er mikill keppnismaður og það hvernig hann bregst við erfiðum aðstæðum hjálpa honum að lifa af í þessari deild. Hann ætti að vera mjög stoltur."

Spánverjinn Silva var nýlega valinn af liðsfélögum sínum til að taka við fyrirliðabandinu af Vincent Kompany sem fór til Anderlecht í sumar.

„Hann býr yfir mikill reynslu, veit hvað liðið þarf og gera og hvað hann sjálfur þarf. Allir fyrirliðar eru ólíkir og með ólíka persónuleika, hann þarf að gera það sem hann trúir að sé rétt," sagði Guardiola að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×