Enski boltinn

Leikmenn Newcastle hafa áhyggjur af stöðu Benitez

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rafael Benitez og Jamaal Lascelles
Rafael Benitez og Jamaal Lascelles
Leikmenn Newcastle hafa áhyggjur af stöðu Rafael Benitez, knattspyrnustjóra liðsins, og yfirstandandi samningaviðræðum hans við félagið.

Benitez var ráðinn til Newcastle árið 2016. Hann náði ekki að bjarga liðinu frá falli þrátt fyrir að hafa endað tímabilið án taps í síðustu sex leikjunum.

Newcastle kom beint upp í úrvalsdeild aftur eftir eitt tímabil í Championship deildinni og endaði í 10. sæti síðasta vetur. Liðið er í 13. sæti eins og er, öruggt með sæti sitt í deildinni.

30. júní rennur samningur hans út og hefur gengið illa að komast að samkomulagi með nýjan samning.

„Það eru ekki margir stjórar eins og hann. Sem leikmenn þá viljum við hafa hann og Newcastle ætti að gera allt sem félagið getur til þess að halda honum,“ sagði Jamaal Lascelles, fyrirliði Newcastle, í viðtali við The Times.

„Þegar þú færð nýjan þjálfara inn þá viltu gera allt til að heilla hann fyrstu vikuna. Með Rafa þá hefur það enst allan tímann.“

„Jafnvel ég, sem hef unnið með honum í langan tíma, ég vil ennþá ná að heilla hann á hverri einustu æfingu. Ég vil bara halda áfram að heilla hann.“

„Maðurinn er með virðingu allra í liðinu og þeir leggja hart að sér. Lið sem gefur sig allt í þetta er erfitt að vinna.“

Benitez sagði sjálfur að Newcastle hafi ekki getað lofað öllu sem er á óskalista Spánverjans og þess vegna geti hann ekki ákveðið að binda sig við félagið áfram. Óskalistinn snýst þó meira um að uppfylla loforð heldur en laun og peninga til leikmannakaupa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×