Viðskipti innlent

Fyrsti á­fangi plast­poka­banns tekur gildi í dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka án endurgjalds
Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka án endurgjalds Vísir/Getty
Frá og með deginum í dag, 1. september, er verslunum og öðrum söluaðilum bannað að afhenda viðskiptavinum burðarpoka án endurgjalds. Bannið nær til allrar afhendingar burðarpoka og skiptir ekki máli úr hvaða efni þeir eru. Bannið nær því ekki eingöngu til plastpoka.

Breytingin kemur til vegna löggjafar sem samþykkt var á Alþingi í maí síðastliðnum. Markmiðið með lagabreytingunni er að banna notkun einnota plastpoka. Fyrsti áfangi laganna sem tekur gildi í dag, en frá og með 1. janúar 2021 verður óheimilt fyrir verslanir og aðra söluaðila að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem það er gegn gjaldi eða ekki.

Það bann mun ná til allra burðarpoka sem innihalda eitthvert magn plasts en ekki til pappírspoka eða maíspoka sem eru lífbrjótanlegir. Slíka poka verður enn leyfilegt að afhenda gegn gjaldi.

Sjá einnig: Plastpokabann samþykkt á Alþingi

Skyldan til þess að innheimta endurgjald fyrir burðarpoka nær til þeirra poka sem eru afhentir neytendum á sölustað. Enn verður hægt að kaupa burðarpoka, ruslapoka og aðra poka í hillum verslana. Sambærileg bönn hafa verið sett á víða um heim á undanförnum árum.


Tengdar fréttir

Verslunarfólk fagnar dauðadómi plastpoka

Nýtt frumvarp umhverfisráðherra til höfuðs burðarplastpokum gengur lengra en lágmark tilskipunar ESB kveður á um. Forsvarsmenn matvöruverslana segjast fagna dauðadómi sem kveðinn sé upp yfir plastpokum í nánustu framtíð.

Bann við plastpokum liður í stærri aðgerð

Frumvarp um bann á burðarplastpokum hefur verið kynnt. Viðskiptavinir matvöruverslana þurfa að finna nýjar leiðir til að bera vörur sínar heim. Skref í átt að minnkun notkunar á einnota plasti hér á landi, enda eflaust kominn tími til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×