Engar tilkynningar þrátt fyrir tafir
Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó segir í samtali við Vísi að margir samverkandi þættir valdi iðulega seinkunum sem þessum. Mikill snjór og umferðarteppa í efri byggðum hafi til dæmis áhrif á leiðarkerfi um alla borg.„Snjórinn og færðin hægir á öllu, maður sér það alveg. Þetta verður allt miklu, miklu þyngra þannig að við þurfum að biðja alla í umferðinni að sýna þolinmæði og gefa sér extra tíma því þetta gengur allt hægar á svona dögum,“ segir Guðmundur.
„Heilt yfir, í dag og í gær, eru seinkanir mjög algengar. Sérstaklega á annatímanum. Við hvetjum fólk til að nýta sér tæknina þegar það fer út og fylgjast með bílnum í rauntíma, því það eru góðar líkur á því að áætlun sumra leiða eigi eftir að raskast svolítið. Sérstaklega þegar við erum ekki með forgang eins og í Mosfellsbæ og Grafarvogi.“
Þá tekur Guðmundur undir það að betur mætti huga að tilkynningum um tafir á höfuðborgarsvæðinu en engar slíkar hafa verið birtar á miðlum Strætó það sem af er morgni, þrátt fyrir töluverðar seinkanir á leiðum.

Svigaksturinn hvimleiðastur
Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að umferðin í morgun hafi verið svipuð og undanfarna daga: mjög hæg. Engin slys hafi þó orðið í snjónum í morgun.„Það sem er hvimleiðast eru þeir ökumenn sem eru óþolinmóðari en aðrir og stunda svigakstur á akreinum, líkt og þeir væru á skíðasvigbraut í Bláfjöllum, og það veldur óþægindum. Það er samt vitað að þeir komast ekkert fyrr í endamarkið, þeir stoppa bara á næstu ljósum og bíða eins og aðrir. Þetta er hvimleiður akstur og óþarfaakstur miðað við þessar aðstæður.“
Rigningin á morgun stoppar stutt
Áfram verður vetrarlegt á landinu í dag. Á morgun nálgast svo lægð sunnan úr hafi og skil hennar ganga inn á land. Hvessir þá af suðaustri og fer að snjóa, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.Lægðinni fylgir hlýtt loft, sem hækkar hita upp fyrir frostmark, og því er von á rigningu við suðurströndina. Hlýindin standa þó stutt því á föstudag snýst í norðaustanátt með snjókomu eða éljum og kólnar aftur í veðri.