Fótbolti

Rooney hefur fengið þjálfaratilboð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður áhugavert að fylgjast með þjálfaranum Wayne Rooney.
Það verður áhugavert að fylgjast með þjálfaranum Wayne Rooney. vísir/getty
Þó svo Wayne Rooney sé ekki búinn að leggja skóna á hilluna þá er hann farinn að hugsa um næsta kafla en hann stefnir að hella sér út í þjálfun.

Það er tæpt ár síðan Rooney fór úr ensku úrvalsdeildina í MLS-deildina í Bandaríkjunum. Þar hefur hann gert það gott með DC United og skorað 23 mörk í 40 leikjum.

Rooney stefnir svo á að feta í fótspor fyrrum félaga sinna í landsliðinu, Frank Lampard og Steven Gerrard, og þjálfa. Hann á þó enn eftir að fá þjálfararéttindi en tilboðin eru byrjuð að koma.

„Ég er byrjaður að ná mér í þjálfararéttindi og við sjáum til hvað kemur upp á borðið þegar ég legg skóna á hilluna,“ sagði hinn 34 ára gamli Rooney.

„Ég hef þegar fengið tilboð en ég ætla að njóta þess að spila áður en ég fer að hugsa of mikið um hvað kemur næst. Ég gæti samt farið beint í þjálfun núna ef ég vildi.“

Rooney segir ánægjulegt að fylgjast með gömlu félögum sínum í landsliðinu gera það gott en Lampard er væntanlega að taka við liði Chelsea.

„Það er frábært fyrir hann og líka uppörvandi fyrir enska leikmenn sem ætla í þjálfun að sjá Frank fá tækifæri hjá stórliði eins og Chelsea.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×