Heildarkostnaður við starfsfólk á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara á síðasta ári var 597,5 milljónir króna. Að meðtaltali störfuðu 55 starfsmenn á skrifstofunni í 51 stöðugildi að stjórnendum og embættismönnum meðtöldum. Þetta kemur fram í svari Lóu Birnu Birgisdóttur, sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildarkostnað starfsfólks á skrifstofunni á síðasta ári. Svarið við fyrirspurninni var lagt fram á fundi borgarráðs í vikunni.
Skrifstofan skiptist í mannauðsdeild, upplýsingadeild, Borgarskjalasafn og tölfræði og greiningu. Heildarlaunakostnaðurinn, 597,5 milljónir króna, skipti í 485,8 milljónir og launatengd gjöld 111,7 milljónir.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir að þessi kostnaður sé móðgun við borgarbúa. „Það er víða bruðlað í borginni og það kemur ekki á óvart þegar borgarstjóri fer fram með þessu fordæmi. Dagur B. Eggertsson er einn launahæsti borgarstjóri heims og rekur líklega dýrustu skrifstofu borgarstjóra í heimi. Umfang skrifstofu borgarstjóra er til dæmis margfalt á við skrifstofu forsætisráðherra,“ segir Eyþór.

