Enski boltinn

Vardy um fagnið: „Geymdi þetta fyrir sérstakt tilefni“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vardy öflugur.
Vardy öflugur. vísir/getty
„Við þurftum að gleyma frammistöðunni í síðasta leik. Við vorum svekktir,“ sagði Jamie Vardy, framherji Leicester, eftir 1-0 sigur á Everton á útivelli í dag en Leicester tapaði á heimavelli gegn Cardiff í síðustu umferð.

„Að koma á útivöll á nýársdag og fá þrjú stig er frábær byrjun,“ en enski framherjinn gerði eina mark leiksins í síðari hálfleik eftir vandræðagang í vörn Everton.

Vardy fékk góða sendingu inn fyrir vörn Everton frá Ricardo Pereira og kláraði færið framhjá Jordan Pickford eins og honum einum er lagið.

„Ricky sá mig strax. Hann hefur verið frábær á tímabilinu. Þetta var góð stoðsending frá honum. Ég er ánægður með að boltinn hafi farið í netið.“

Fagn Vardy vakti nokkra athygli en hann fór í handahlaup út við hornfánann. Hann var spurður út í fagnið í leikslok.

„Ég er búinn að geyma þetta í skápnum í smá tíma. Ég geymdi þetta fyrir sérstakt tilefni og hvað er betra en nýársdagur. Nýtt ár, nýr ég,“ sagði þessi skemmtikraftur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×