Erlent

Fara fram á líf­sýni úr Ron­aldo vegna nauðgunar­máls

Atli Ísleifsson skrifar
Cristiano Ronaldo gekk til liðs við ítalska liðið Juventus í sumar.
Cristiano Ronaldo gekk til liðs við ítalska liðið Juventus í sumar. Getty
Lögregla í Las Vegas í Bandaríkjunum hefur farið fram á að fá afhent lífsýni úr portúgalska knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo. Hann er sakaður um að hafa nauðgað bandarískri konu á hóteli í borginni árið 2009.

Wall Street Journal segir frá því að lögregla vilji bera saman lífsýni úr Ronaldo og sýni sem var að finna á kjól konunnar umrætt kvöld.

Það var í lok september síðastliðinn sem Kathryn Mayorga steig fram í viðtali við þýska blaðið Der Spiegel þar sem hún sakaði Cristiano Ronaldo um að hafa nauðgað sér.

Hin meinta nauðgun á að hafa átt sér stað árið 2009 og hafi Ronaldo greitt henni um 43 milljónir króna árið 2010 fyrir að segja ekki frá málinu opinberlega.

Sjá einnig: Með skjal í höndunum sem gæti komið Ronaldo illa: „Hún sagði nei og hættu margoft“

Ronaldo, sem spilar nú með ítalska liðinu Juventus, hefur staðfestlega hafnað ásökununum. „Nauðgun er viðbjóðslegt brot sem stríðir gegn öllu því sem ég er og allt sem ég trúi á,“ sagði Ronaldo á Twitter, skömmu eftir að ásakanir Mayorga komu fram.

Hófu rannsókn á ný

Um svipað leyti var greint frá því að lögregla í Las Vegas hafi hafið rannsókn á málinu á nýjan leik. Samkvæmt lögum í Nevada fyrnast nauðganir ekki og gæti því svo farið að Ronaldo verði dreginn fyrir dóm.

Wall Street Journal segir frá því að rannsókn lögreglu í Nevada hafi miðað áfram og hafi fundist lífsýni á kjól Mayorga sem hún klæddist umrætt kvöld. Hafi lögregla leitað til ítalskra yfirvalda með kröfu um að fá lífsýni úr Ronaldo til samanburðar.


Tengdar fréttir

Mayorga stígur fram: Ég öskraði á hann

Í fyrra var Cristiano Ronaldo sakaður um nauðgun á Kathryn Mayorga í Las Vegas árið 2009 en Kathryn hefur nú komið fram til þess að lýsa atburðinum frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×