Fótbolti

Segja að Heimir Hallgríms sé að fá Wilfried Bony til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Bony fagnar marki með Gylfa Sigurðssyni.
Wilfried Bony fagnar marki með Gylfa Sigurðssyni. Getty/Mike Hewitt
Wilfried Bony var frábær hjá Swansea City í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma og nú gæti Fílabeinsstrendingurinn verið á leiðinni til Al-Arabi í Katar.

Heimir Hallgrímsson er þjálfari Al-Arabi og er á sínu fyrsta tímabili í Katar. Heimir myndi heldur betur styrkja framlínu liðsins með því að fá Bony inn í liðið.  

BBC og aðrir enskir fjölmiðlar segja frá þessum mögulegum vistaskiptum Wilfried Bony.





Wilfried Bony fór á kostum með Swansea City á árunum 2013 til 2015 og skoraði mörg mörk eftir stosendingar frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Bony hefur hins vegar ekki fundið sig á þessu tímabili og hefur ekki verið í hóp í undanförnum tveimur leikjum.

Bony er orðinn þrítugur og myndi koma til Al-Arabi á láni frá Swansea City. Swansea City vill losa sig við samning Fílabeinsstrendingsins sem hefur í kringum 120 þúsund pund í vikulaun eða tæpar 19 milljónir íslenskra króna.

Swansea City keypti Wilfried Bony á tólf milljónir punda frá Manchester City árið 2017 en hafði selt hann til City fyrir 28 milljónir tveimur árum áður.

Wilfried Bony hefur verið að kom til baka eftir hnémeiðsli sem héldu honum frá í tíu mánuði en Bony hefur skorað eitt mark í sjö leikjum fyrir Graham Potter á þessu tímabili.  

Al-Arabi er í sjötta sæti deildarinnar en hefur aðeins skorað 17 mörk í 15 leikjum. Liðið fyrir ofan er með 25 mörk og liðið fyrir neðan hefur skorað 27 mörk. Toppliðið er síðan með 65 mörk eða 48 mörkum meira en lið Al-Arabi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×