Enski boltinn

Ranieri segist ekki viss um framtíð sína

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Er tíminn að renna út hjá Ranieri
Er tíminn að renna út hjá Ranieri vísir/getty
Útlitið er orðið ansi svart á Craven Cottage og varð svartara í gær þegar liðið tapaði gríðarlega mikilvægum fallslag við Southampton. Claudio Ranieri segist ekki vita hvort hann sé öruggur í starfi.

Ranieri tók við Fulham í nóvember síðast liðnum af Slavisa Jokanovic. Fyrsti leikur hans við stjórnina var einmitt gegn Southampton, 3-2 sigur sem var fyrsti sigur Fulham í deildinni síðan 22. september.

Það hefur hins vegar ekki gengið svo vel hjá Fulham undir Ranieri, liðið hefur aðeins unnið einn deildarleik á árinu 2019.

Úrslit vikunnar þýða að Fulham er ennþá í 19. sætinu en Southampton fór upp úr fallsæti og eru 10 stig frá Fulham í öruggt sæti.

„Starfið mitt? Ég veit það ekki, spurðu eigandann,“ sagði Ranieri við blaðamann Sky Sports eftir leikinn á St. Mary's vellinum í Southampton í gærkvöld.

„Ég skil ekki hvað hefur gerst þetta tímabil. En ég held áfram að leggja hart að mér þar til þetta er tölfræðilega ómögulegt.“

„Við þurfum að hafa trú á okkur og standa saman.“

Stuðningsmenn Fulham eru margir búnir að missa þolinmæðina og mátti heyra þá kyrja „þú veist ekki hvað þú ert að gera“ í átt að Ranieri í gær þegar hann gerði breytingar á liði sínu.

Ranieri fundar með hæstráðendum á Craven Cottage í dag og ensku götublöðin segja að hann verði látinn taka pokann sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×