Enski boltinn

Sarri: Kepa þurfti að borga liðinu en hann er enn númer eitt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kepa fékk að prófa það að vera varaskeifa í gær
Kepa fékk að prófa það að vera varaskeifa í gær vísir/getty
Maurizio Sarri segir Kepa Arrizabalaga ennþá vera aðalmarkvörð Chelsea þrátt fyrir að hann hafi ekki fengið að spila gegn Tottenham í gær eftir rifrildið fræga í úrslitaleik enska deildarbikarsins.

Kepa neitaði að fara út af undir lok úrslitaleiksins og varð Sarri brjálaður yfir hegðun markvarðarins. Þeir sögðu þetta báðir misskilning eftir leikinn og Kepa var sektaður af Chelsea fyrir hegðun sína, en Sarri var greinilega ekki nógu sáttur þar sem hann setti markmanninn á bekkinn.

Eftir leik Chelsea og Tottenham í gær, sem þeir bláklæddu unnu 2-0, var Sarri spurður að því hvort Kepa væri enn markmaður númer eitt sagði Sarri: „Að sjáfsögðu.“

„Kepa gerði mistök. Hann er búinn að borga félaginu en hann þurfti að borga liðinu líka.“

„En núna þarf þetta að hætta. Kepa verður með okkur frá morgundeginum og hann verður í hópnum um helgina. Ég veit ekki hvort hann verður inn á vellinum en hann byrjar einn af tveimur næstu leikjum.“

Chelsea er enn í sjötta sæti deildarinnar þrátt fyrir sigurinn í gær en er aðeins tveimur stigum á eftir Manchester United og á leik til góða. Chelsea mætir Fulham á Craven Cottage á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×