Erlent

R. Kelly ekki látinn laus nema gegn milljón dollara tryggingu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd sem tekin var af Kelly þegar hann var færður í varðhald af lögreglunni í Chicago.
Mynd sem tekin var af Kelly þegar hann var færður í varðhald af lögreglunni í Chicago. Chicago Police Dept./AP

Bandaríski tónlistarmaðurinn R. Kelly verður ekki látinn laus úr varðhaldi nema gegn greiðslu tryggingarfjár upp á eina milljón Bandaríkjadala, samkvæmt úrskurði dómara í Chicago. Sú upphæð nemur rúmum 120 milljónum króna.



Kelly var í morgun handtekinn grunaður um kynferðisbrot gegn fjórum konum, þar af þremur undir lögaldri. Þetta eru þó langt í frá einu ásakanirnar á hendur Kelly um kynferðisbrot en hann hefur í meira en áratug ítrekað verið ásakaður um ýmiskonar kynferðisbrot, meðal annars einmitt gegn stúlkum undir lögaldri, vörslu barnakláms og að giftast fimmtán ára stúlku. Hann hefur þó aldrei verið dæmdur fyrir meint brot sín.



Kelly gaf sig fram til lögreglunnar í gær og var í kjölfarið handtekinn og færður í gæsluvarðhald. Auk þess var honum gert að láta vegabréf sitt og er honum ekki heimilt að vera í hvers konar samskiptum við neinn undir 18 ára aldri.



Í nýútkominni heimildaþáttaröð um brot söngvarans, sem nefnist Surviving R. Kelly, var fjallað um ásakanir á hendur honum um að hafa haldið ungum konum og stúlkum föngnum við afar slæmar aðstæður.



Lögmaður Kelly hefur sagt við fjölmiðla vestanhafs að skjólstæðingur hans sé með öllu saklaus af öllu sem hann hefur verið sakaður um.


Tengdar fréttir

Tvær konur til viðbótar saka R.Kelly um kynferðisbrot

Tvær konur, þær Rochelle Washington og Latresa Scaff, hafa nú stigið fram og lýst kynferðisofbeldi sem þær segja að bandaríski tónlistarmaðurinn Robert Sylvester Kelly, betur þekktur sem R.Kelly, hafi beitt þær á tíunda áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×