Fótbolti

Margrét Lára bætti markametið sitt í stórsigri á Portúgal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Getty/Filipe Farinha
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tryggði sér níunda sætið í Algarve-bikarnum með sannfærandi 4-1 stórsigri á heimastúlkum í Portúgal.

Íslenska liðið hafði gert markalaust jafntefli við Kanada og tapaði 4-1 fyrir Skotlandi í fyrri leikjum sínum á mótinu en stelpurnar okkar náðu sér vel á strik í dag.

Blikastelpurnar Agla María Albertsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir skoruðu mörk íslenska liðsins í fyrri hálfleik og varamennirnir Margrét Lára Viðarsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir skoruðu hin tvö mörkin undir lok leiksins.

Portúgal náði að minnka muninn í 3-1 á lokakaflanum en sigur íslenska liðsins var mjög öruggur.

Agla María Albertsdóttir skoraði sitt mark strax á 2. mínútu leiksins og markið hjá Selmu Sól kom á 38. mínútu eftir stoðsendingu frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttir en allar spilar þær með Íslandsmeistaraliði Breiðabliks.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði markið sitt eftir stoðsendingu frá Dagnýju Brynjarsdóttur en báðar eru þær að koma aftur inn í landsliðið. Þær komu líka báðar inn á sem varamenn í seinni hálfleiknum.

Margrét Lára er markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi en hún skoraði sitt 78. A-landsliðsmark í dag. Selma Sól Magnúsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir voru aftur á móti að skora sitt fyrsta A-landsliðsmark.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×