Enski boltinn

Warnock ósáttur við Hamrén og ætlar að ræða við hann í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Erik Hamrén spilaði Aroni Einari of mikið að mati Warnocks.
Erik Hamrén spilaði Aroni Einari of mikið að mati Warnocks. vísir/vilhelm
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, er allt annað en sáttur við mínúturnar 150 sem að Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, spilaði á móti Andorra og Frakklandi í síðasta landsleikjafríi.

Warnock lét í sér heyra þegar að honum fannst Heimir Hallgrímsson spila Aroni Einari of mikið og nú er hann engu hrifnari af Erik Hamrén sem lét Aron Einar spila 60 mínútur á gervigrasinu í Andorra og allan leikinn á móti Frakklandi í ómögulegri stöðu.

Enski stjórinn lét óánægju sína í ljós á blaðamannafundi sínum í morgun í aðdraganda leiks Cardiff á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley um helgina.

„Ég var svekktur út þjálfara íslenska landsliðsins. Mér var upphaflega tjáð að það stæði ekki til að tefla Aroni fram á gervigrasinu á móti Andorra en þar spilaði hann meira en klukkutíma og svo spilaði hann 90 mínútur á móti Frakklandi,“ sagði Warnock.

„Ég skil þetta ekki alveg. Ég veit að það er kominn nýr þjálfari sem tók við eftir heimsmeistaramótið og hann vill eflaust standa sig en þegar að liðið var 3-0 undir eftir 80 mínútur var hægt að skipta Aroni út af.“

„Ég samþykkti það, að Aron myndi spila á HM og gaf honum nýjan samning. Hann var frá keppni í þrjá mánuði eftir það og við þurftum að byggja hann upp. Ég varð fyrir vonbrigðum með íslenska landsliðsþjálfarann og mun ræða við hann í dag,“ sagði Neil Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×