Fótbolti

Pique spilaði með landsliði Katalóníu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pique var fyrirliði í gær.
Pique var fyrirliði í gær. vísir/getty
Spænski landsliðsmaðurinn Gerard Pique tók þátt í vináttulandsleik með landsliði Katalóníu í gær.

Katalónía er ekki sjálfstætt ríki og landsliðið því ekki viðurkennt af FIFA og UEFA. Leikurinn gegn Venesúela í gær var því ekki opinber leikur.

Þetta var í tíunda sinn sem Pique spilar fyrir landslið Katalóníu en í fyrsta sinn síðan hann hætti að spila fyrir spænska landsliðið. Hann sagðist vera hættur eftir HM síðasta sumar.

Katalónía vann leikinn 2-1 en Bojan, leikmaður Stoke og fyrrum leikmaður Barcelona, skoraði annað marka Katalóna í leiknum. Venesúela skellti Lionel Messi og félögum í Argentínu í síðustu viku.

Á meðal annarra þekktra nafna í liði Katalóníu má nefna miðjumann Southampton, Oriol Romeu, og bakvörð Brighton, Martin Montoya. Marc Bartra, fyrrum leikmaður Barca og núverandi leikmaður Betis, var einnig í liðinu.

Katalóníu heldur áfram sjálfstæðisbaráttu sinni og ljóst er að ríkið mun eiga frambærilegt landslið ef það gengur einhvern tímann eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×