Lögreglunni á Suðurnesjum barst nýverið tilkynning um að ellefu ára börn hefðu fundið tvo poka með hvítu dufti í umdæminu.
Duftið reyndist vera amfetamín og var það afhent lögreglu.
Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum.
Í tilkynningunni kom einnig fram að lögreglumenn, sem voru við eftirlit, hefðu komið auga á hóp pilta fyrir utan bifreið á vegslóða. Fát hafi komið á piltana þegar lögreglan ræddi við þá og mikla kannabislykt lagði frá þeim.
Lögregla kom þá auga á logandi kannabisvindling í grasinu.
Piltarnir voru færðir á lögreglustöð þar sem rætt var við þá. Tilkynning var send til barnaverndarnefndar og samband haft við forráðamenn.

