Einhver svakalegur misskilningur virðist vera í gangi á milli handknattleiksdeildar Þórs og þjálfarans Geirs Sveinssonar. Þór tilkynnti um ráðningu Geirs sem þjálfara í gær en Geir segist alls ekkert hafa ráðið sig sem þjálfara félagsins.
Geir tjáði mbl.is í morgun að fréttin væri einfaldlega röng. Það sé ekkert frágengið. Þess utan búi hann í Þýskalandi og ekki standi til að hann flytji heim.
„Ég er ekki að fara að verða þjálfari liðsins í þeirri mynd sem fyrirsögnin og allt segir til um. Ég mun hins vegar aðstoða Halldór eftir bestu getu, vera hans ráðgjafi,“ segir Geir í samtali við mbl.is í morgun. Geir var tilkynntur sem þjálfari ásamt Halldóri Erni Tryggvasyni sem samkvæmt Geir er þjálfari liðsins.
Þór á Akureyri mætir aftur til leiks í handboltanum næsta vetur þar sem hætt er að leika undir merkjum Akureyri handboltafélags fyrir norðan.
Akureyri féll úr Olís-deildinni síðasta vetur og Þór mun því spila í Grill 66-deildinni í vetur. Geir tók við liði Akureyrar um áramótin síðustu en náði ekki að halda liðinu í deildinni.
Tilkynntur sem þjálfari Þórs en segist ekkert hafa verið ráðinn
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
