Erlent

Uppfinningamaður svifbrettis sveif hálfa leið yfir Ermarsundið

Eiður Þór Árnason skrifar
Hinn 40 ára gamli Franky Zapata minnti einna helst á fljúgandi ofurhetju þegar hann sveif á svifbretti sínu yfir hálft Ermarsundið í dag. Flugferð hans endaði þó skyndilega þegar hann klessti á bát eftir nokkra klukkutíma í loftinu.

Zapata, sem þróaði sjálfur svifbrettið sem um ræðir, komst ómeiddur frá óhappinu og hyggst fara í aðra flugferð á næstu dögum. Hann vonaðist til að svífa 36 kílómetra, alla leið frá strandbænum Sangatte við norðurströnd Frakklands að Dover í suðaustur Englandi.

Hann gerði ráð fyrir því að stoppa á miðri leið og fylla tank sinn aftur upp með steinolíu áður en hann kláraði för sína. Í þetta skiptið klessti hann þó á eldsneytisbátinn með áðurnefndum afleiðingum.

„Ég flaug. Þetta var eins og draumur,“ sagði uppfinningamaðurinn við blaðamenn eftir flugferð sína sem hlaut óvæntan endi.

Ferð Zapata í dag átti að vera í tilefni af því að 110 ár eru frá því að franski flugmaðurinn Louis Bleriot, flaug fyrstur manna yfir Ermarsundið.

Zapata heldur ótrauður áfram og hyggst smíða nýtt bretti fyrir næstu ævintýraferð.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×