Fótbolti

Hin nýgifta Dagný fékk ekki að spila en Portland náði fjögurra stiga forskot á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Portland Thorns fagna einu af fimm mörkum sínum í leiknum.
Leikmenn Portland Thorns fagna einu af fimm mörkum sínum í leiknum. Mynd/Twitter/@ThornsFC
Portland Thorns er komið með fjögurra stiga forystu á toppi bandarísku kvennadeildarinnar í knattspyrnu eftir 5-0 stórsigur á Houston Dash í nótt.

22.329 áhorfendur mættu á leikinn sem er nýtt met hjá Portland Thorns sem fær jafnan frábæran stuðning á heimaleikjum sínum. Portland Thorns var þarna að bjóða HM-stjörnur sínar velkomnar aftur eftir heimsmeistaramótið í Frakklandi.





Dagný Brynjarsdóttir var mætt aftur út til Portland en hún gifti sig á Íslandi um síðustu helgi.

Dagný þurfti að sætta sig við að sitja allan tímann á varamannabekknum hjá Portland Thorns.





Bandaríski heimsmeistarinn Lindsey Horan skoraði fyrsta markið strax á sjöundu mínútu og fimm mínútum síðar bætti hin ástralska Hayley Raso við öðru marki. Tobin Heath, liðsfélagi Horan í bandaríska gullliðinu, lagði upp bæði mörkin.

Hin kanadíska Christine Sinclair skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á átjándu mínútu áður en Hayley Raso skoraði sitt annað mark á 23. mínútu. Portland Thorns skoraði því fjögur mörk á fyrstu 23 mínútum leiksins.

Fimmta og síðasta markið kom ekki fyrr en nítján mínútum fyrir leikslok og það var sjálfsmark.

Portland Thorns er þar með komið með 26 stig eða fjórum stigum meira en North Carolina Courage sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×